Gjörningurinn: Tökum höndum saman, við þurfum á hvert öðru að halda - Reykjavíkurtjörn 28. apríl 2007 kl. 13 til 15

Listahátíðin List án landamæra 2007
Sjá hér bækling um hátíðina og hér er auglýsing um opnunarhátíðina 26. apríl 2007 í Ráðhúsi Reykjavíkur. 

Gjörningurinn:
Tökum höndum saman, við þurfum á hvert öðru að halda

Reykjavíkurtjörn 28. apríl 2007 kl. 13 til 15 

Gjörningurinn byggir á þátttöku þinni við að skapa líf og list án landamæra! 

Smellið hér til að lesa ljóðið Tjarnarhringur eftir Helga Seljan
Smellið hér til að hlusta á viðtal við Margréti M. Norðdahl og Kolbrúnu Dögg um List án landamæra og gjörninginn á Morgunvakt Rásar 1 á RÚV

Gjörningurinn fer fram á gangstéttum við tjörnina þar sem myndaður verður hringur með þátttöku þinni. Fólk safnast saman kl. 13 til að mynda hringinn. Leiðbeinendur gjörnings verða staðsettir víðsvegar í hringnum og aðstoða. Gangan hefst kl. 14 og þátttakendur ganga saman hönd í hönd einn hring í kringum tjörnina. Allir eru velkomir að mæta og taka þátt. 

Að taka höndum saman
Hringurinn er eitt af grunnformunum. Hann felur í sér hreyfingu. Við erum gjörn á að flokka fólk og setja það í mismunandi kassa. Að taka höndum saman og mynda hring óháð stétt og stöðu, augnlit eða útlitsgerð, krefst þess að við horfumst í augu við sjálf okkur. Sjóndeildarhringurinn stækkar, við verðum ekki eins þröngsýn á lífið og færumst úr spori.

Tjörnin táknar það að við horfumst í augu við okkur sjálf, speglum okkur í vatninu, og horfumst í augun á náunganum, sem við höldumst í hendur við. Þessi gjörningur er góð leið til að efla vitundarvakningu, sem þarf að eiga sér stað til þess að allir geti verið sýnilegir og tekið þátt í þjóðfélaginu á sínum forsendum.

Hér er skjal (.pdf) með nánari upplýsingum um gjörninginn

Að List án landamæra standa: Átak Hitt húsið Fjölmennt Þroskahjálp ÖBÍ  -  Höfundur gjörnings er Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, en einnig koma að sköpun hans með ýmsum hætti: Alþjóðahús Félag eldri borgara Hugarafl Islandpanorama Samtökin 78


Hvernig hugmyndin að gjörningnum Tökum höndum saman varð til

Spegill sálarinnar
Að horfast í augu við lífið og sjálfan sig getur verið erfitt en um leið þroskandi. Ég hef oft þurft að horfast í augu við sjálfan mig. Um daginn uppgötvaði ég ýmislegt við það að horfa á sjálfa mig í speglinum. Dagurinn var búin að vera erfiður. Ég horfði á sjálfa mig í speglinum um leið og ég þvoði á mér hendurnar. Þetta er ég, svona lít ég út. Spegilmynd mín blasti við mér. Hún hefur breyst með aldrinum. Ég færði mig nær speglinum og horfði djúpt í augun á mér. Augun mín eru blágrá að lit. Augasteinninn virðist vera svartur. Hann stækkar og minnkar á víxl eftir ljósbirtunni. Augað er eins og hringur. Í miðjunni er augasteinn umlukinn lit sem breytist við ljós og myrkur.

Augun mín
Hringur, litur, myrkur, ljós, stækkar, minnkar. Á einu augnabliki skynjaði ég einhvern sannleika. Sannleika sem var fólgin í augunum. Ég færði mig frá speglinum í hálfgerði leiðslu og þurrkaði á mér hendurnar. Það er ekki allt sem sýnist en augað virðist gefa mér leiðina að þessum sannleika, það gefur augaleið. Ég ætlaði ekki að rjúka í skyndi til  augnlæknis, en það hvarflaði að mér að hann gæti svarað mér ýmsu um gerð augnanna. Er augað eins og hringur, nákvæmlega 360 gráðu hringur? Sólin virðist vera gul og hringlaga en er hún það í raun og veru?

Það liggur í augum uppi
Dagar liðu og ég sinnti mínum daglegu venjum og horfði á sjálfan mig við og við í speglinum. Ég hafði uppgötvað eitthvað en hugur minn var enn að raða saman myndunum. Laugardagsmorgun í janúar vakna ég upp snemma eins og um vinnudag  væri að ræða. Ég leit á klukkuna og sá að ég gat sofið lengur. Ég var glaðvakandi með skýran huga. Myndin birtist skýrt í huga mér. Það liggur í augum uppi! Að horfast í augu við sjálfan sig, við spegilmynd sína. Að vera sáttur við sjálfan sig með kostum og göllum, að sýna hver maður er með því að hætta að fela sig og gefa lífinu tækifæri.

Að taka höndum saman
Hringurinn er eitt af grunnformunum. Hann felur í sér hreyfingu. Við erum alltaf að flokka fólk og setja það í mismunandi kassa. Kassinn er ferhyrningur með hornum og er því ekki eins hreyfanlegur og hringformið. Að taka höndum saman og mynda hring óháð stétt og stöðu, augnlit og útlitsgerð, krefst þess að við horfumst í augu við sjálf okkur. Sjóndeildarhringurinn stækkar, við verðum ekki eins þröngsýn á lífið og færumst úr spori. Ég sé fyrir mér góða leið til að efla þá vitundarvakningu sem þarf að eiga sér stað til þess að allir geti verið sýnilegir og tekið þátt í þjóðfélaginu á sínum forsendum. Með því að framkvæma myndrænan gjörning í tengslum við einhverja uppákomu.

Hringur í kringum tjörnina
Hugmyndin er sú að mynda hring í kringum tjörnina í Reykjavík með því að fá almenning til liðs við okkur. Tjörnin, táknar það að við horfumst í augu við sjálf okkur, speglum okkur í vatninu og jafnframt horfumst við í augun á náunganum sem við höldumst í hendur við. Við erum jú öll manneskjur, gerð úr sama efninu. Til þess að ná að mynda hring utan um tjörnina þarf fjöldann allan af fólki. Allir eru velkomnir. Við ætlum ekki að flokka fólk og setja það út í einhver horn í kassa, það er svo auðvelt að falla í þá gryfju og  búa til kassa utan um hringinn og öfugt.

Allir með
Þessi hugmynd gæti alveg orðið að veruleika í vor í tengslum við árlega hátíð,  List án landamæra, þar sem fatlaðir og ófatlaðir hafa tekið höndum saman. Einnig að vekja athygli á málefnum minnihlutahópa rétt fyrir Alþingiskosningar í vor.

Augun koma mikið við sögu í þessum gjörning og væri spennandi að búa til verkefni eða auglýsingar tengt augunum til að vekja fólk til umhugsunar um fordóma gagnvart náunganum og okkar eigin fordóma sem við höfum um okkur sjálf.

Það er fleira sem býr að baki þessum gjörningi þó svo að hann sé tiltölulega einfaldur í framkvæmd.  Mjög mikilvægt er að ákveðin vitundarvakning eigi sér stað í þjóðfélaginu og í heiminum öllum. Að við leggjum okkur fram við vera sátt og umburðarlynd. Hvernig er það hægt, er einhver von um að skapa frið? Já, með því hvíla í núinu. Við hugsum oft um að friðurinn verði einhvern tíman í framtíðinni, í órafjarlægð. Með því að taka höndum saman og horfast í augu við sjálfan sig og náungan, víkkum við sjóndeildarhringinn og sköpum eitt samfélag fyrir alla

Mosfellsbær 22. janúar 2006 ( grunnhugmynd er frá ferbrúar 2004)

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfsbjargar lsf.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband